Forsíða/ Námskeið/ Um Allt í köku/ Hafa samband
 

Smjörkrem sett á köku (á hvolfi)

 

 


Það getur verið mikil þolinmæðisvinna að setja smjörkrem þokkalega jafnt og slétt á kökur. Þessi frábæra aðferð gerir öllum kleift að setja fullkomlega slétt smjörkrem á allar kökur (kringlóttar og ferkantaðar) og hún sparar gífurlegan tíma!Slétt smjörkrem með hvössum brúnum

Það er hægt að nota þess aðferð þegar notað er smjörkrem með alvöru smjöri. Aðferðin virkar ekki eins vel þegar annars konar krem eru notuð, svo sem royal icing eða frosting krem.


Hvassar brúnir     Rúnnaðar brúnir

Ef kakan á að vera með hvassar brúnir, sjá mynd til vinstri, er þessi aðferð algjör snilld. Aðferðin gerir manni kleift að ná fullkomnum hvössum brúnum og alveg sléttu kremi sem gerir massann sléttan og fallegan á kökunni.

Þegar massi er settur á hart smjörkrem líkt og hér er mikilvægt að það sé alveg slétt því annars sjást allar misfellur í gegnum massann. Það þarf líka að pensla hart krem með vatni áður en massinn er settur á kökuna því annars festist massinn ekki við kremið.

Það má líka láta kökuna standa á borðinu þar til smjörkremið er orðið lint. Þá þarf maður ekki að vanda eins mikið til verksins þar sem það er hægt að slétta úr misfellum í massanum eftir á með sykurmassasléttara. Þá verða brúnirnar rúnnaðari, sjá mynd til hægri.


Teiknið línu á smjörpappírinn

1. Það er best að nota snúningsdisk til þess að geta snúið kökunni án þess að hreyfa höndina sem stýrir kreminu..Byrjið á því að leggja kökumótið á smjörpappír og dragið línu meðfram mótinu.


Smyrjið pappírinn

2. Passið að pappírinn sé ekki stærri en snúningsdiskurinn (eða kökuplattinn) svo hann þvælist ekki fyrir á meðan unnið er. Ekki klippa of nálægt línunni því við viljum hafa pappírinn stærri en kökuna. Leggið smjörpappírinn á hvolf á snúningsdiskinn þannig að penna- eða blýantslínan snúi niður. Þannig kemst blekið eða blýið ekki í snertingu við smjörkremið. Smyrjið pappírinn með jurtafeiti, t.d. palmíni eða kókosolíu.


Setjið smjörkrem á pappírinn
3. Setjið mikið af smjörkremi á miðju pappírsins.


Dreifið úr kreminu
4. Dreifið úr smjörkreminu svo það sé þokkalega jafnt. Það er ekki mikilvægt að ná því sléttu en við viljum að þykktin sé sæmilega jöfn. Látið smjörkremið ná aðeins út fyrir línuna sem var teiknuð hinum megin á smjörpappírinn.

Hvolfið kökunni yfir kremið
5. Hvolfið kökunni yfir smjörkremið. Þar sem smjörkremið var sett aðeins út fyrir línuna þarf kakan ekki að lenda nákvæmlega í miðjunni. Nú snýr botn kökunnar upp.


Setjið krem á botninn (sem nú snýr upp)
6. Setjið þunnt lag af kremi á botninn (sem nú snýr upp) ef þið viljið festa kökuna á diskinum. Þetta er ekki nauðsynlegt.Dragið umframkrem upp hliðarnar
7. Dragið umfram smjörkrem á pappírnum upp á hliðar kökunnar með breiðri sköfu. Farið allan hringinn og skafið mesta smjörkremið af smjörpappírnum.
 

Setjið smjörkrem á hliðarnar   Kremið slétt
8. Setjið mikið af smjörkremi á hliðar kökunnar. Notið sköfuna  til þess að slétta úr og dreifa smjörkreminu. Við setjum mjög mikið krem áður en við sköfum það í burtu til þess að tryggja að engir kökumolar komist í kremið. Ef það er mikið af kökumulningi í kreminu getur hann sést í gegnum sykurmassann. Ef það á aðeins að nota smjörkrem viljum við líka hafa það alveg hreint og slétt. Haldið sköfunni alveg kyrri og snúið disknum til þess að fá alveg jafnt lag af kremi allan hringinn.

 

 

Kökunni snúið við
9. Hvolfið kökudisk yfir kökuna og snúið henni við með snúningsdiskinum. Nú snýr kakan rétt og það er óhætt að fjarlægja snúningsdiskinn. Setjið kökuna í kæli í um klukkustund.
 

Pappírinn tekinn af
10. Þegar smjörkremið er orðið alveg hart er kakan tekin úr kælinum. Lyftið einum enda smjörpappírsins og dragið af kökunni. Eftir situr alveg slétt yfirborð kökunnar.
 


Ef smjörkremið ykkar er mjög loftmikið eins og hér er gott að geyma smá smjörkrem við stofuhita á meðan kakan er í kæli. Þegar pappírinn hefur verið fjarlægður er hægt að sparsla í loftgötin. Þegar maður gerir mikið krem í einu eru minni líkur á miklu lofti. Loftgötin skipta ekki máli þegar sykurmassi er settur yfir. Ef kakan á aðeins að vera með smjörkremshjúp reynum við að hafa ekkert loft í kreminu.
© Allur réttur áskilinn www.notando.is
SFH-Logo